Categories
Fræðsluefni Slökkvitæki

Lithium slökkvitæki

Ef reykur berst frá eða eldur kviknar í tæki með lithium rafhlöðu er ekki ráðlagt að gera tilraunir til slökkvistarfs. Rýma strax húsnæði eða svæði og hringja í 112.

Á síðustu misserum hafa orðið alvarleg bruna atvik sem rekja má til lithium rafhlaðna í samgöngutækjum þ.m.t. rafhlaupahjóla og rafmagnshjóla.

Lithium rafhlöður sem eru lokaðar inn í sérstökum hólfum ætluðum til að verja þau eru fyrst og fremst það sem veldur því að erfitt er að slökkva í tækjunum. Þegar keðjuverkandi hitamyndun hefst vegna rangrar notkunar á hleðslutækum, skemmd eða galla, myndast sprengifimt gas sem getur verið lífshættulegt.

Á markaði er nú að finna kynningarefni fyrir slökkvitæki markaðssett fyrir lithium elda er sýna prófanir á rafhlöðum sem ekki eru inn í sambærilegum hólfum og finnast í rafmagnsknúnum samgöngutækjum, t.d. rafmagnshlaupahjólum. Af þeim sökum er ekki hægt að staðfesta að virkni þeirra sé með þeim hætti sem viðskiptavinur ætlast til miðað við núverandi markaðssetningu.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun vekur athygli á mikilvægi þess að söluaðilar upplýsi viðskiptavini um eðli bruna í lithium rafhlöðum og leiðbeini um rétt viðbrögð ef upp kemur eldur í þeim.

  • Upplýsa viðskiptavini: Allir sem kaupa lithium slökkvitæki ættu að vera vel upplýstir um eðli og hættur vegna bruna í lithium rafhlöðum, þ.m.t. að ekki er hægt að slökkva eld í rafhlöðu sem er í lokuðu hólfi fyrir rafmagnsknúin samgöngutæki.
  • Leiðbeiningar: Ef reykur berst frá eða eldur kviknar í tæki með lithium rafhlöðu er ekki ráðlagt að gera tilraunir til slökkvistarfs. Rýma strax húsnæði eða svæði og hringja í 112.