Search
Close this search box.

Visthönnun og orkumerkingar

Meðal verkefna HMS eru visthönnun vöru og orkumerkingar. Kröfur um visthönnun orkutengdra vara og orkumerkingar byggjast á samræmdri löggjöf á Evrópska efnahagssvæðinu sem innleiddar eru hér á landi með lögum nr. 42/2009 um visthönnun vöru sem tengist orkunotkun og lögum nr. 72/1994 um merkingar og upplýsingaskyldu varðandi vörur sem tengjast orkunotkun og reglugerðum sem á þessum lögum byggja.

Tilgangur

Tilgangur laga um visthönnun er að stuðla að visthönnun orkutengdra vara sem tengist orkunotkun með það að markmiði að efla hönnun, framleiðslu, markaðssetningu og notkun á vörum sem eru umhverfisvænar, með minni orkunotkun og umhverfisálag að leiðarljósi. Lögin skulu tryggja samræmi í visthönnun innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Tilgangur laga um orkumerkingar er að stuðla að því að orka sé notuð með skynsamlegum og hagkvæmum hætti með því að tryggja að neytendur hafi greiðan aðgang að samræmdum upplýsingum um orkunotkun vara sem þessi lög ná til, svo og áhrif á umhverfi auk annars er varðar rekstur þeirra. Lög um orkumerkingar vara skulu tryggja samræmi í merkingum og stöðluðum upplýsingum vara sem tengjast orkunotkun innan Evrópska efnahagssvæðisins og frjálst flæði á slíkum vörum á sameiginlegum innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins.

Í tilskipun 2009/125/EB frá 21. október 2009 er settur fram rammi í þeim tilgangi að setja fram kröfur varðandi visthönnun orkutengdra vara. Markmiðið með tilskipun Evrópusambandsins um visthönnun orkutengdra vara er að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum vara þegar kemur að framleiðslu, orkunýtni og losun gróðurhúsalofttegunda. Tilskipunin á að stuðla að sjálfbærri þróun og aukinni umhverfisvernd ásamt því að auka framboð á markaði. Tilskipunin setur fram kröfur til umhverfisverndar í vöruhönnun eftir vöruflokki.

Visthönnun þýðir að fella eigi umhverfisþætti inn í vöruhönnun í því skyni að bæta visteiginleika vöru allan vistferil hennar.

Evrópusambandinu er heimilt að setja fram kröfur um orkunotkun vara. Kröfur um orkunotkun eru samhæfðar í ríkjum Evrópusambandsins og á Evrópska efnahagssvæðinu. Samhæfðar kröfur stuðla að minni framleiðslukostnaði sem skilar sér frekar til neytenda í hagstæðara vöruverði en ef einstök ríki hefðu sínar eigin kröfur.

Markmið tilskipunarinnar er að efla vernd umhverfisins með því að draga úr ýmsum neikvæðum umhverfisáhrifum sem tengjast orkutengdum vörum. Tilskipunin felur framkvæmdastjórninni að setja fram kröfur sem orkutengdar vörur verða að uppfylla til að mega vera á markaði í Evrópusambandinu og á Evrópska efnahagssvæðinu. Tilskipunin gefur möguleika á að gefa út reglugerðir um kröfur fyrir sérhverjar vörur um orkunýtingu og aðra þætti sem hafa áhrif á umhverfið. Í reglugerðum eru settar fram kröfur um hvaða upplýsingar þurfa og eiga að vera til staðar í handbókum ætluðum neytendum, á vefsíðum í/eða tengslum við sölu.

Tilskipunin um visthönnun orkutengdra vara er lagagrundvöllur fyrir kröfur um visthönnun. Evrópska efnahagssvæðið getur sett fram kröfur um orkutengdar vörur eða hafa áhrif á orkunotkun þegar þær eru notaðar. Kröfunum fyrir hverja vöru fyrir sig er framfylgt með Evrópusambandsreglugerðum.

Nánari upplýsingar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um visthönnun orkutengdra vara og orkumerkinga 

Margar orkutengdar vörur búa yfir miklum möguleikum til umbóta og ná þannig að draga úr umhverfisáhrifum og ná fram auknum orkusparnaði með betri hönnun. Eitt af meginmarkmiðum tilskipunarinnar er að stuðla að því að hönnun á vörum sem tengjast orkunotkun verði með þeim hætti að viðkomandi vara nýti orkuna sem best og dragi þannig úr áhrifum orkunotkunar á umhverfið eins og losun gróðurhúsalofttegunda. Undir tilskipunina og efni frumvarpsins falla ekki einvörðungu vörur sem nota, framleiða, flytja eða mæla orku heldur gætu ákveðnar orkutengdar vörur fallið þar undir, til dæmis vörur sem notaðar eru í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð.

Í reglugerð (ESB) 2017/1369 frá 4. júlí 2017 er um setningu ramma fyrir orkumerkingar og um niðurfellingu tilskipunar 2010/30/ESB. Í reglugerðinni er fjallað um merkingar og staðlaðar vörulýsingar á orkutengdum vörum er greina frá notkun þeirra og öðrum aðföngum. Til að tryggja árekstralaus umskipti yfir í þessa reglugerð, ættu gildandi kröfur, sem mælt er fyrir um í framseldum gerðum sem samþykktar eru samkvæmt 10. gr. tilskipunar 2010/30/ESB og tilskipunar framkvæmdarstjórnarinnar 96/60/EB, enn fremur að gilda áfram um viðkomandi vöruflokka þar til þær eru felldar niður eða skipt út fyrir framseldar gerðir sem samþykktar eru samkvæmt þessari reglugerð. Beiting þessara gildandi krafna er með fyrirvara um framkvæmd þessari reglugerð. 

Tilgangurinn með orkumerkingum er að útvega hliðstæðar upplýsingar um orkunotkun vöru og þar af leiðandi hafa jákvæð áhrif á val neytenda. Framseldar reglugerðir sem heyra undir reglugerð (ESB) 2017/1369 um orkumerkingar vara skilgreina útlit orkumerkinga og grunn til útreikninga fyrir orkuflokk tilgreindar vöru.

Evrópska efnahagssvæðið krefst þess að ákveðnar vörur skuli vera með orkumerkingar. Orkumerkingar gera neytendum kleift að velja vörur með bestu orkunotkun og þar af leiðandi takmarka orkunotkun og áhrif gróðurhúsalofttegunda á andrúmsloftið meðal Evrópusambandsríkjanna og Evrópska efnahagssvæðisins. Reglurnar um orkumerkingar eru þær sömu í öllum Evrópusambandsríkjunum og á Evrópska efnahagssvæðinu.

Orkumerking gefur til kynna hversu orkunýting vörunnar er. Nýi orkumerkimiðinn notar samræmda orkunýtniflokka, A til G. Orkunýtniflokkarnir A+++, A++ og A+ munu hverfa smá saman eftir því sem viðeigandi reglugerðir taka gildi. Einnig eiga allar orkumerktar vörur að vera skráðar í EPREL-gagnagrunninn af framleiðendum/birgðasölum.

Alþingi afgreiddi á 151. löggjafaþingi lög um breytingu á lögum um merkingar og upplýsingaskyldu varðandi vörur sem tengjast orkunotkun, nr. 72/1994, með síðari breytingum. Markmið laganna var að innleiða reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/1369 frá 4. júlí 2017 um setningu ramma fyrir orkumerkingar og um niðurfellingu tilskipunar 2010/30/ESB. Tilgangur þessara laga er að stuðla að því að orka sé notuð með skynsamlegum og hagkvæmum hætti með því að tryggja að neytendur hafi greiðan aðgang að samræmdum upplýsingum um orkunotkun vara sem þessi lög ná til, svo og áhrif á umhverfi auk annars er varðar reksturs þeirra. Lögin tryggja samræmi í merkingum og stöðluðum upplýsingum vara sem tengjast orkunotkun innan Evrópska efnahagssvæðisins og frjálst flæði á slíkum vörum á sameiginlegum innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins. 

Kröfur Evrópska efnahagssvæðisins

Mörg heimilistæki og vörur nota orku eða hafa áhrif á orkunotkun án þess að nýta orkuna beint. Það eru ákveðnar reglur um visthönnun og orkumerkingar þeirra en þessar vörur hafa mikil áhrif á orkunotkun heimila. Evrópusambandið setur fram kröfur um visthönnun orkutengdra vara með tilskipun og orkumerkingar á þessar vörur með reglugerð

 

Orku­merk­ing­ar stuðla að orku­nýtni

Orkumerktar vörur í ríkjum Evrópu eru til dæmis “hvítvörur” og ljósaperur. “Hvítvörur” eru m.a. kælitæki, með og án frystis, uppþvottavélar og þurrkarar. Tilgangurinn með að orkumerkja vörur er að gera orkunýtingu vörunnar sjónræna og gera neytendum kleift að taka upplýsta ákvörðun um hvaða vara notar minnsta orku.

Kröfur um visthönnun orkutengdra vara setur takmarkanir á orkunotkun þeirra á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins. Reglugerðir um visthönnun geta einnig sett fram kröfur um hámarks áhrif á umhverfið eins og t.d. kröfur um hljóðstyrk.

HMS hefur umsjón með að lögum og reglugerðum um visthönnun orkutengdra vara og orkumerkinga sé framfylgt.