Við sölu á áfengum drykkjum er í reglum nr. 876/2016 um mælitæki krafa að magnið sem selt er sé mælt. Við sölu á sterku áfengi, léttvíni í glasi og bjór frá krana er farið fram á að notaður sé viðurkenndur búnaður, merkt glös eða viðmiðunarmælir. Búnaðurinn skal vera CE-merktur og sannprófaður af viðurkenndum aðila.
HMS heimsótti nýlega 18 sölustaði og skoðaði hvernig staðið er að málum þar. Allir 18 staðirnir voru með bjór til sölu af krana og var almennt verið að nota glös með réttum merkingum til að mæla magnið. Af þessum 18 stöðum voru 14 með merkt glös en 4 ekki. Verri var staðan við sölu á glasi af léttvíni en 10 af þeim 16 stöðum sem buðu upp á slíkt voru með viðmiðunarmæla en á 6 stöðum var helt í glasið eftir auganu. Verst var ástandið við sölu á sterku áfengi en 14 af þeim 16 stöðum sem seldu sterkt áfengi voru að nota viðmiðunarmæla sem ekki eru CE-merktir. Því var engin staðfesting fyrir því að afgreitt væri selt magn áfengis. Einungis tveir staðir voru með þessi mál í lagi.
HMS mun áfram fylgjast með þessum málum og heimsækja fleiri staði. Til að koma ástandinu í rétt horf mun stofnunin m.a. vera í samráði við birgja á þessum búnaði.