Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) vekur athygli á hættulegri bangsalyklakippu sem seld var á vefsíðu Joom. Grunur leikur á að leikfangið gæti verið í umferð á Íslandi.
Þetta er bangsalyklakippa sem er um það bil 8 cm. Leikfangið er í glærum plastpoka. Leikfangið er ekki CE-merkt og ber ekki lotunúmer né strikamerki.
Hver er hættan?
Málmkeðjan getur auðveldlega losnað og gert það að verkum að lítið barn getur sett það í munninn og kafnað. Enn fremur er plastpokinn þunnur og ef barn leikur sér að honum getur plastið hulið munninn og nefið sem getur valdið því að barnið kafnar. HMS beinir því til allra eigenda þessara lyklakippa að hætta notkun leikfangsins þegar í stað.