Viðvörunarmerkingar

Til að tryggja örugga notkun leikfangsins skal framleiðandi með viðvörunarmerkingu tilgreina takmarkanir á notkun leikfangsins. Takmarkanir skulu a.m.k. tilgreina lágmarks- eða hámarksaldur notandans og, þar sem við á, hæfni notandans, hámarks- eða lágmarksþyngd notandans og nauðsyn þess að leikfangið sé aðeins notað undir eftirliti fullorðinna.

Viðvörunarmerking skal vera vel sýnileg, auðlæsileg, skiljanleg og nákvæm og á undan henni skal standa „Viðvörun“ eða „Varúð“.

Viðvörunarmerkingar skulu vera á leikfanginu, á áfestum merkimiða eða á umbúðum leikfangsins og, þar sem við á, á notkunarleiðbeiningum sem fylgja leikfanginu. Lítil leikföng sem eru seld án umbúða skulu vera með áfesta viðeigandi viðvörunarmerkingu.

Viðvörunarmerking sem ræður úrslitum um ákvörðun um kaup á leikfangi, t.d. sem tilgreinir lágmarks- og hámarksaldur notenda og aðrar viðeigandi notkunartakmarkanir, skulu vera á umbúðunum eða með öðrum hætti vel sýnilegar neytanda fyrir kaup, þ.m.t. þegar kaup eiga sér stað á Netinu.

Viðvörunarmerkingar skulu vera á íslensku.

Á leikföngum sem gætu verið hættuleg börnum yngri en 36 mánaða skulu vera varnarorð, t.d. „Hæfir ekki börnum yngri en 36 mánaða“ eða „Hæfir ekki börnum yngri en þriggja ára“ eða eftirfarandi viðvörunarmerki:

 

Með þessum viðvörunum skal fylgja stutt lýsing, sem gæti verið í notkunarleiðbeiningum, um þá sérstöku hættu sem er ástæða varúðarráðstöfunarinnar.

Þetta gildir ekki um leikföng sem vegna notkunar, stærðar, sérkenna, eiginleika eða af öðrum ástæðum eru augljóslega ekki ætluð börnum yngri en 36 mánaða.

Á hreyfileikföngum skal vera eftirfarandi viðvörun:

„Aðeins til heimilisnota“

Leikföngum þessum skulu fylgja leiðbeiningar þar sem vakin er athygli á nauðsynlegu reglubundnu eftirlit með og viðhaldi á þýðingarmiklum hlutum (fjöðrun, jarðfestingum og öðrum festingum o.s.frv.) og bent á að sé ekki haft eftirlit með þessu sé hætta á falli eða veltu.

Einnig skulu fylgja leiðbeiningar um hvernig eigi að setja leikfangið saman og ábendingar um hvaða hlutar geti valdið hættu sé leikfangið ekki sett saman á réttan hátt. Veita skal sérstakar upplýsingar um heppilegt yfirborð sem leikfangið skal sett á.

Á nytjaleikföngum skal vera eftirfarandi viðvörun:

„Notist undir eftirliti fullorðinna“

Að auki skulu fylgja notkunarleiðbeiningar með þessum leikföngum ásamt varúðarráðstöfunum sem notandi þarf að fylgja og aðvörun um að sé þeim ekki fylgt stafi hætta af leikföngunum (og skal hættan tilgreind) og fylgi notkun á því tæki eða vöru sem leikfangið er smækkað líkan eða eftirlíking af. Einnig skal tilgreina að leikföngin skuli geyma þar sem börn unir ákveðnum aldri ná ekki til að skal framleiðandinn tilgreina aldurinn.

Vara skal við hættum sem stafa af efnum eða blöndum í notkunarleiðbeiningum með leikföngum sem innihalda efni eða blöndur sem bein hætta stafar af og seta um varúðarreglur sem notandi á að fylgja til að forðast þessar hættur. Skylt er að tilgreina nákvæmlega með hliðsjón af þeirri tegund leikfanga sem um ræðir. Einnig skal geta hvers konar skyndihjálp þurfi að veita valdi notkun leikfangs alvarlegu slysi. Einnig skal tilgreina að leikföngin skuli geyma þar sem börn undir ákveðnum aldri ná ekki til og skal framleiðandinn tilgreina aldurinn.

Einnig skulu umbúðir efnafræðileikfangsins vera með eftirfarandi viðvörun:

„Ekki ætlað börnum yngri en (aldurstakmörk tilgreind af framleiðanda) ára. Notist undir eftirliti fullorðinna“

Eftirfarandi leikföng teljast m.a. til efnafræðileikfanga: búnaður fyrir efnafræðitilraunir, plaststeypum, smækkaðar útgáfur af búnaði fyrir leirkeraverkstæði, glerjun eða ljósmyndun og áþekk leikföng, sem valda efnahvarfi eða sams konar breytingu efna við notkun.

Ef þessi leikföng eru boðin til sölu sem leikföng skulu þau vera með eftirfarandi viðvörun:

„Notið hlífðarbúnað. Skal ekki nota í umferð“

Að auki skal minna á það í notkunarleiðbeiningum að leikfangið verði ætíð að nota með varúð þar sem það krefjist mikillar færni ef komast á hjá byltum og árekstrum sem valda áverkum á notanda og öðrum. Einnig skal gefa ábendingar um hlífarbúnað sem ráðlagt er að nota (hjálma, hanska, hnéhlífar, olnbogahlífar o.s.frv.)

Á vatnsleikföngum skal vera eftirfarandi viðvörun:

„Einungis til nota í vatni þar sem barnið nær niður á botn og er undir eftirliti fullorðinna“

Leikföng sem eru í matvælum eða sem er blandað saman við matvæli skulu vera með eftirfarandi viðvörun:

„Inniheldur leikfang. Mælt er með eftirliti fullorðinna“

Eftirlíkingar af hlífðargrímum og hjálmum skulu vera með eftirfarandi viðvörun:

„Þetta leikfang veitir ekki vörn“

Leikföng sem gert er ráð fyrir að séu spennt yfir vöggu, barnarúm eða barnavagn með snæri, þráðum, teygjum eða borðum skulu vera með eftirfarandi viðvörun á umbúðum, sem skal einnig vera varanlega merkt á leikfangið:

„Til að koma í veg fyrir slys af völdum flækju skal fjarlægja þetta leikfang þegar barnið byrjar að reyna að komast á hendur og hné og skríða“

Umbúðir fyrir ilmefni í borðspilum fyrir lyktarskyn, snyrtivörusett, og leikföngum fyrir bragðskyn sem innihalda ilmefni skulu vera með eftirfarandi viðvörun:

„Inniheldur ilmefni sem geta valdið ofnæmi“