Innflytjandi

Innflytjandi skal aðeins setja á markað leikfang sem uppfyllir viðeigandi kröfur um öryggi.

 

Áður en leikfang er sett á markað skal innflytjandi:

  • Tryggja að framleiðandi hafi framkvæmt eða látið framkvæma samræmismat með viðeigandi samræmismataðferð.
  • Tryggja að framleiðandi hafi útbúið tæknigögn.
  • Tryggja að leikfang beri CE-merkingu og því fylgi þau skjöl sem krafist er.
  • Tryggja að leikfangið beri gerðar-, framleiðslu-, rað-, eða tegundarnúmer eða annað sem gerir kleift að bera kennsl á það eða, ef það er ekki hægt vegna stærðar eða eiginleika leikfangs, að umbeðnar upplýsingar séu á umbúðum eða í skjali sem fylgir leikfanginu.
  • Tryggja að leikfangið beri nafn framleiðanda, skráð firmaheiti eða skráð vörumerki og heimilisfang, þar sem hafa má samband við hann, eða ef það er ekki hægt, á umbúðum eða í skjali sem fylgir leikfanginu.

 

Innflytjandi sem telur eða hefur ástæðu til að ætla að leikfang sé ekki í samræmi við grunnkröfur um öryggi skal ekki setja leikfang á markað fyrr en það hefur verið fært til samræmis við viðkomandi öryggiskröfur. Ef hætta stafar af leikfanginu skal innflytjandi enn fremur upplýsa framleiðanda og HMS þar um.

Innflytjandi skal tilgreina nafn sitt, skráð firmaheiti eða skráð vörumerki og heimilisfang, þar sem hafa má samband við hann, á leikfanginu eða, ef það er ekki hægt, á umbúðunum eða í skjali sem fylgir leikfanginu.

Innflytjandi skal tryggja að leikfanginu fylgi leiðbeiningar og upplýsingar um öryggismál á íslensku.

Innflytjandi skal tryggja að á meðan leikfang er í hans ábyrgð að geymslu- og flutningsskilyrði tefli ekki í tvísýnu samræmi þess við grunnkröfur um öryggi.

Innflytjandi skal framkvæma úrtaksprófun á leikföngum, þegar það á við vegna áhættu sem stafar af leikfangi og til að vernda heilsu og öryggi neytenda, rannsaka og, ef þörf er á, halda skrá yfir kvartanir, leikföng sem uppfylla ekki kröfur og innköllun leikfanga og veita dreifingaraðilum upplýsingar um slíkt eftirlit.

Innflytjandi skal tafarlaust gera ráðstafanir til úrbóta sem nauðsynlegar eru fyrir samræmi leikfangsins, ef hann telur eða hefur ástæður til að ætla að leikfang sem hann hefur sett á markað sé ekki í samræmi við viðkomandi samhæfingarlöggjöf Evrópska efnahagssvæðisins. Ef hætta stafar af leikfanginu skal innflytjandi tafarlaust tilkynna það HMS, einkum um tilvik þar sem ekki er farið að ákvæðum og um allar ráðstafanir sem gerðar eru til úrbóta.

Innflytjandi skal varðveita afrit af EB-samræmisyfirlýsingunni í tíu ár eftir að leikfangið hefur verið sett á markað og hafa það tiltækt HMS og tryggja að HMS geti haft aðgang að tækniskjölum sé þess óskað.

Innflytjandi skal á grundvelli rökstuddrar beiðni frá HMS, afhenda stofnunni allar upplýsingar og skjöl sem nauðsynleg eru til að sýna fram á samræmi leikfangsins. Upplýsingarnar og skjölin skulu vera á íslensku eða, með heimild HMS, á öðru tungumáli Evrópska efnahagssvæðisins. Innflytjandi skal hafa samvinnu við HMS, að beiðni hennar, að því er varðar allar aðgerðir sem beitt er til að útiloka áhættu sem stafar af leikföngum sem hann hefur sett á markað.