Framleiðandi skal, þegar það á við, framkvæma úrtaksprófun á leikföngum á markaði, vegna áhættu sem stafar af leikfangi og til að vernda heilsu og öryggi neytenda, rannsaka það og, ef þörf krefur, halda skrá yfir kvartanir, leikföng sem uppfylla ekki kröfur og innköllun leikfanga og veita dreifingaraðilum upplýsingar um slíkt eftirlit.
Framleiðandi sem telur eða hefur ástæðu til að ætla að leikfang sem hann hefur sett á markað sé ekki í samræmi við viðkomandi samhæfingarlöggjöf Evrópska efnahagssvæðisins skal tafalaust gera ráðstafanir til úrbóta sem nauðsynlegar eru fyrir samræmi leikfangsins við viðkomandi öryggiskröfur, taka það af markaði eða innkalla, ef við á. Ef hætta stafar af leikfanginu skal framleiðandi enn fremur tilkynna HMS Það tafarlaust að leikfangið hafi verið boðið fram á markaði hér á landi.
Framleiðandi skal á grundvelli beiðni HMS, afhenda stofnuninni allar upplýsingar og skjöl sem nauðsynleg eru til að sýna fram á samræmi leikfangsins. Upplýsingarnar og skjölin skulu vera á íslensku eða, með heimild HMS, á öðru tungumáli Evrópska efnahagssvæðisins. Framleiðandi skal hafa samvinnu við HMS, að því er varðar allar aðgerðir sem beitt er til að útiloka áhættu sem stafar af leikföngum, sem hann hefur sett á markað.
Viðurkenndur fulltrúi
Framleiðanda er heimilt að tilnefna viðurkenndan fulltrúa með skriflegu umboði. Framleiðanda er þó óheimilt að yfirfæra skyldur sínar til viðurkennds fulltrúa.
Viðurkenndur fulltrúi skal inna af hendi þau verkefni sem tilgreind eru í umboði framleiðanda. Umboðið skal a.m.k. veita viðurkenndum fulltrúa heimild til:
- Að varðveita EB-samræmisyfirlýsingu og tæknigögn og hafa þau tiltæk fyrir HMS í a.m.k. tíu ár frá því að leikfang var sett á markað.
- Á grundvelli rökstuddrar beiðni, að afhenda HMS öll þau gögn og skjöl sem sýna fram á samræmi leikfangs.
- Að hafa samvinnu við HMS um allar aðgerðir sem beitt er til að útiloka áhættu sem stafar af leikfangi, sem fellur undir umboðið.