Dreifingaraðili

Dreifingaraðili skal, áður en leikfang er boðið fram á markaði, tryggja eftirfarandi:

  • Að gætt sé allra gildandi krafna.
  • Að leikfang beri CE-merkingu.
  • Að leikfanginu fylgi öll gögn sem krafist er og einnig leiðbeiningar og upplýsingar um öryggismál á íslensku.
  • Að framleiðandi og innflytjandi hafi uppfyllt kröfur sem gerðar eru til þeirra.

Dreifingaraðili skal ekki bjóða leikfang fram á markað ef hann telur eða hefur ástæðu til að ætla að leikfang sé ekki í samræmi við grunnkröfur um öryggi skv. 9. gr. og II. viðauka reglugerðar nr.  944/2014, fyrr en það hefur verið fært til samræmis við kröfurnar. Ef hætta stafar að leikfanginu skal dreifingaraðili enn fremur upplýsa HMS og framleiðanda eða innflytjanda.

Dreifingaraðili skal tryggja að á meðan leikfang er á hans ábyrgð að geymslu- eða flutningsskilyrði tefli ekki í tvísýnu samræmi þess við grunnkröfur um öryggi.

Dreifingaraðili skal tafarlaust gera ráðstafanir til úrbóta sem nauðsynlegar eru fyrir samræmi leikfangsins, ef hann telur eða hefur ástæðu til að ætla að leikfang sem hann hefur boðið fram á markaði sé ekki í samræmi við viðkomandi samhæfingarlöggjöf Evrópska efnahagssvæðisins. Ef hætta stafar af leikfanginu skal dreifingaraðili enn fremur tafarlaust tilkynna það HMS, einkum um tilvik þar sem ekki er farið að ákvæðum og um allar ráðstafanir sem gerðar eru til úrbóta.

Dreifingaraðili skal, á grundvelli rökstuddrar beiðni frá HMS, afhenda stofnuninni allar upplýsingar og skjöl sem nauðsynleg eru til að sýna fram á samræmi leikfangsins. Hann skal hafa samvinnu við HMS að beiðni stofnunarinnar að því er varðar allar aðgerðir sem beitt er til að útiloka hættu sem stafar af leikfangi, sem hann hefur boðið fram á markaði.