Categories
Nikotínvörur og rafrettur, nikótinpúðar

Staða leyfisveitinga og eftirlits með nikótínvörum og rafrettum

Leyfisveitingar og eftirlit mun halda áfram og hvetur HMS umsóknaraðila til að koma sölustöðum í löglegt horf strax.

Á síðasta ári var lögum um rafrettur breytt og nikótínvörur færðar undir lögin. Á meðal nikótínvara eru t.d. nikótínpúðar sem margir þekkja. Á meðal annara breytinga var að nú þurfa söluaðilar að fá sérstakt leyfi sem HMS veitir. Til að fá leyfið þarf HMS að taka út vöruframboð og framsetningu vara í verslunum. Verslanir hljóta ekki leyfi fyrr en þær uppfylla kröfur laga.

Á síðustu sex mánuðum hafa verið heimsóttar 66 verslanir víða um land og af þeim hefur 51 hlotið leyfi. 15 eru enn í vinnslu vegna ýmissa athugasemda. Í þessum heimsóknum voru lögð ellefu tímabundin sölubönn vegna 44 vara þar sem nikótínmagn var of mikið, varan ekki tilkynnt, nikótínmagn ekki ljóst o.fl. Í langflestum tilfellum voru þessar vörur innkallaðar frá söluaðila og þeim eytt.

Vörur voru sýnilegar í 21 verslun. Söluaðilar hafa mætt þessum kröfum með t.d. að geyma vörur í lokuðum skápum eða skúffum.

19 tilmæli hafa verið gefin út vegna ýmissa atriða, eins og t.d. merkinga á umbúðum vara. Söluaðilar eru beðnir um að gera úrbætur á vörum til að halda áfram sölu. Sé það ekki gert eru lögð sölubönn á vöruna.

Leyfisveitingar og eftirlit mun halda áfram og hvetur HMS umsóknaraðila til að koma sölustöðum í löglegt horf strax.