Categories
Leikföng

Skynjunarrólur geta verið hættulegar

HMS beinir því til allra eigenda slíkra róla að hætta notkun þeirra þegar í stað.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) vill vara neytendur við svokölluðum skynjunarrólum sem eru seldar á mörgum netmörkuðum og gæti verið í umferð á Íslandi. Vörurnar eru meðal annars seldar sem innirólur fyrir börn og hengirúm. Skynjunarrólur eru úr bómullartaui sem eru hengdar í loftið í gegnum hring. Hættan felst í því að barn snúist í rólunni og efnið vefjist um höfuð þess eða háls. Snúningurinn getur valdið meðvitundarleysi og jafnvel köfnun ef barnið nær ekki að losa sig.  

Skynjunarrólur eru vinsælar um alla Evrópu er hægt að finna á mörgum netmörkuðum. Þær geta kallast „Therapy swing“ eða „Sensory swing“ og er sérstaklega beint að börnum sem eru með ADHD og einhverfu.

Vitað er um fleiri en eitt slys í Evrópu og þar á meðal eitt dauðaslys vegna vörunnar „Therapy swing, sensory swing, children´s swing, for indoor, for yoga, indoor, swing, sensory integration for autism, ADHD, asperger“. Einnig eru sambærilegar rólur í umferð sem eru álíka hættulegar eins og Yongiaga, HappyKido, Ruuf-Drops en þessi listi er ekki tæmandi.

HMS beinir því til allra eigenda slíkra róla að hætta notkun þeirra þegar í stað.