Húsnæðis- og mannvirkjastofnun vill að gefnu tilefni brýna það fyrir öllum landsmönnum að fara varlega með kerti og kertaskreytingar um hátíðirnar en desember og janúar eru þeir mánuðir ársins sem brunar af völdum kerta eru hvað algengastir.
Hverju þarf að huga að við meðferð kerta:
- Yfirgefið aldrei vistarverur þar sem kertaljós logar.
- Gætið vel að staðsetningu kertaljóss.
- Ekki nálægt opnum glugga þar sem vindur getur kveikt eld á ný eða sveiflað gluggatjöldum í kertalogann.
- Ekki nálægt tækjum sem gefa frá sér hita, eins og t.d. sjónvarp.
- Hafið ekki mishá kerti of nálægt hverju öðru – almenn viðmiðun er 10 cm á milli.
- Kertakveikur á ekki að vera lengri en 1 cm og því þarf að klippa af kveiknum svo ekki sé hætta á að logandi kveikur detti af og brenni út frá sér.
- Ekki treysta því að sjálfslökkvandi kerti slökkvi á sér sjálf.
- Kennið börnum að umgangast kertaljós því þau hafa sérstakt aðdráttarafl fyrir börn.
Hvernig á að slökkva á kerti:
Aldrei má hella vatni á kerti, sérstaklega ekki útikerti. Best er að slökkva á kerti með því að nota kertaslökkvara. Þó eru til dæmi þess að áfram hafi rokið úr kveik kerta lengi á eftir að loginn var kæfður. Til þess að öruggt sé að eldur lifi ekki lengur í kertakveik geta neytendur slökkt með kertaslökkvara og síðan lagt blautan fingur utan um kertakveikinn.
Kertastjakar:
Kertastjakar verða að vera úr óbrennanlegu efni sem leiðir ekki hita og eru stöðugir. Ekki öll ílát eru heppileg til nota sem kertastjaka eins og t.d. falleg glös sem eru ekki sérstaklega ætluð undir kerti. Notið því ekki hvað sem er undir kerti.
Kertaskreytingar:
Kertaskreytingar eru vinsælar en einnig eldfimar. Hafið kertaskreytingar ætíð á óeldfimu undirlagi t.d. úr gleri eða málmi og gætið að því að kertaloginn nái ekki til skreytingarinnar. Kerti brenna mishratt, jafnvel kerti úr sama pakka en oftast eru upplýsingar um brennslutíma á umbúðum kertanna sem gagnlegt er að kynna sér. Á markaðnum er einnig fáanleg eldtefjandi efni til að úða yfir skreytingar þannig að minni hætta er á eldsvoða ef kertalogi berst í skreytinguna.
Hafið útikertin fjarri trépöllum:
Varasamt er að setja fleiri en eitt útikerti þétt saman og kveikja á þeim þannig. Útikerti skal undantekningalaust standa á óbrennanlegu undirlagi og aldrei á tréplötu, trépalli eða á öðru auðbrennanlegu undirlagi. Útikerti loga flest eingöngu á kveiknum, en þó eru til kerti, þar sem allt yfirborð vaxins logar. Þá getur loginn náð allt að 50 cm hæð og slettist til í allar áttir. Aldrei skal snerta logandi útikerti með berum höndum eða þegar nýlega hefur slokknað á því. Eldur getur hæglega blossað upp ef vatn eða snjór slettist á vax kertisins. Æskilegt er að koma kertunum þannig fyrir að þau sjáist vel og að ekki sé hætta á að börn eða fullorðnir rekist í þau. Þeir, sem klæðast víðum fatnaði, svo sem flaksandi kápum eða frökkum, þurfa að gæta sérstakrar varúðar í nánd við slík kerti.