Undanfarin ár hefur verið mikil aukning á heimatilbúnum snudduböndum sem oftast eru seld á samfélagsmiðlum. Einhver hluti þeirra er búinn til í heimahúsum, ýmist saumuð úr efni, prjónuð eða föndruð á annan hátt, t.d. með perlum eða öðrum smáum hlutum.
Það virðist vera að engin af þessum heimatilbúnum snudduböndum uppfylla kröfur um öryggi. Þá er augljóst að framleiðendur þeirra eru ekki meðvitaðir um lagalegar kröfur og staðla sem þessar vörur þurfa að uppfylla. Snuddubönd sem hafa eitthvert leikgildi, eins og meðfylgjandi dæmi sýna, þurfa að vera CE-merkt og merkt framleiðanda og heimilisfangi hans. Ef þau hafa ekkert leikgildi þá þurfa þau að vera merkt framleiðanda og heimilisfangi hans.
Enn fremur eru smáhlutir, t.d. klemmur og perlur, sem mynda snuddubandið víða aðgengilegir í tómstundabúðum eða í gegnum netið. Langflestar vörurnar hafa engar viðvörunarmerkingar um hver hættan sé af vörunni og engar upplýsingar um lagalegar kröfur. Ef smáhlutir á snudduböndunum losna er hætta á að börn setji þá upp í munn og getur það valdið köfnunarhættu hrökkvi þeir ofan í kok þeirra. T.d. getur snuddubandið liðast í sundur eða kúlur/perlur brotnað. Einnig þarf að hafa í huga að snuddubandið sé ekki of langt svo það skapist ekki hætta á að það vefjist um háls barnsins. Miðað er við að það megi ekki vera lengra en 22 cm. Og síðast en ekki síst þá hefur varan ekki farið í gegnum nauðsynlegar prófanir.
Annað vandamál er að ekki er hægt að rekja framleiðendur þessara heimatilbúnu vara, þar sem nafn þeirra og heimilisfang fylgja venjulega ekki vörunni, sem gerir yfirvöldum erfitt fyrir að rannsaka þessar vörur og fyrir neytendur að sækja rétt sinn.