Þegar hættuleg vara finnst á markaði er mikilvægt að upplýsingum sé miðlað hratt og örugglega. Það er hlutverk Safety Gate tilkynningakerfisins. Safety Gate er samstarfsverkefni aðildaríkja EES þar sem ríkin setja inn upplýsingar um hættulegar vörur til þess að vara aðrar þjóðir við hættum sem af þessum vörum getur stafað svo hægt sé að grípa til viðeigandi ráðstafana og tryggja öryggi neytenda.
Árlega eru staðfestar rúmlega 2.000 tilkynningar á hættulegum vörum í Safety Gate og undanfarið hafa í kringum 10 komið frá Íslandi. Hlutfall tilkynninga getur sveiflast á milli ára og skýrist það af áherslum eftirlitsstjórnvalda það árið en yfirleitt eru um 20% tilkynninganna vegna hættulegra leikfanga og því mikilvægt fyrir foreldra að fylgjast með innköllunum á leikföngum.
Ekki eru allar tilkynningarnar komnar til vegna aðgerða eftirlitsstjórnvalda. Einnig er þar að finna tilkynningar ábyrgra framleiðenda sem upplýsa um hættulega galla við tiltekna framleiðslulotu og innkalla.
Hér á Vöruöryggi munu birtast fréttir af innköllunum og hættulegum vörum og getur fólk fylgst með til að tryggja öryggi sitt og sinna. Einnig er hægt að fylgjast með tilkynningum á Safety Gate síðunni en tilkynningar eru sendar inn alla föstudaga.