Categories
Eðalmálmar Fræðsluefni

Gullkorn

Mikilvægt er að neytendur passi sjálfir upp á að þær merkingar sem eiga að vera á vörunni séu fyrir hendi eða að þær fylgi.  Hönnunin sem er ómerkt er eins og málverk sem er nafnlaust.

Vöruöryggisteymi HMS hefur gefið út upplýsingabækling um hvaða lagalegar kröfur gilda um vörur unnar úr eðalmálmum, þ.e. úr gulli, silfri, palladíum og platínu (tengill í bækling). Bæklingurinn nýtist framleiðendum söluaðilum og neytendum. Farið er yfir helstu kröfur sem gilda um eðalmálma og hvaða ábyrgðarstimplar verða að koma fram á vörunni en þeir eru hreinleikastimpill og nafnastimpill. Við kaup á skartgripum eiga neytendur erfitt með að meta hversu mikið gull eða annar eðalmálmur er í vörunni og hver er framleiðandi nema að umræddir stimplar séu til staðar.

Nafnastimpill auðkennir framleiðanda, seljanda eða innflytjanda vöru þannig að hægt sé að rekja uppruna vörunnar og þarf með hver sé ábyrgð á vörunni. Hann þarf að vera samþykktur og skráður hjá HMS oftast er um að ræða bókstafi sem auðkenna ábyrgðaraðilann en það er einnig hægt að nota tákn. Listinn yfir skráða íslenska nafnastimpla og eigendur þeirra er hægt að skoða á heimasíðu voruoryggis.is.

Hreinleikastimpill segir til um þann hreinleika sem seljendur lofa við sölu á vörunni. Það er þriggja tölustafa stimpill sem sýnir hversu mikið magn af hreinu gulli, silfri, platínu eða palladíum er í viðkomandi vöru. Sem dæmi ef að hreinleikastimpillinn er 585, þá inniheldur varan 58,5% af hreinu gulli ef varan er merkt 375 þá inniheldur varan 37,5% gull. Algengt er að silfur sé merkt 925 sem þýðir að varan inniheldur 92,5% silfur. Ef þessir stimplar eru ekki á vörunni þá hefur neytandinn ekkert í höndunum sem segir til um það hvað hann er að kaupa og það er sérstakt ef að ábyrgðaraðili vörunnar merkir sér hana ekki.

HMS hvetur neytendur sem ætla að kaupa skartgripi unna úr eðalmálmum til að kaupa aðeins slíkar vörur ef þær eru með ábyrgðarstimplum.  Mikilvægt er að neytendur passi sjálfir upp á að þær merkingar sem eiga að vera á vörunni séu fyrir hendi eða að þær fylgi.  Hönnunin sem er ómerkt er eins og málverk sem er nafnlaust.