Hvað ætlar þú að skjóta upp mörgum flugeldum í ár? Þú ert náttúrulega með á hreinu hvernig á að meðhöndla sprengiefni, er það ekki? HMS hefur tekið saman fjögur lykilatriði svo þú og þínir byrjið ekki nýárið á heimsókn á spítalann:
- Lestu og fylgdu leiðbeiningunum á umbúðum skoteldsins
- Notaðu öryggisgleraugu
- Bíddu með áfengisdrykkju þar til eftir að þú hefur sprengt
- Sprengjur eru ekki fyrir börn
Auðveldasta og áhrifaríkasta leiðin til að forðast slys er að lesa og fylgja leiðbeiningum sem er á umbúðum allra flugelda. Þar koma fram upplýsingar um hvernig eigi að kveikja í, fjarlægðir frá áhorfendum, mannvirkjum og trjám og hvað skuli gera ef flugeldurinn virkar ekki. Ef flugeldurinn er gallaður er þetta besta leiðin til að koma í veg fyrir slys.
Gott er að venja sig á að nota öryggisgleraugu. Augun eru viðkvæm og eru mörg dæmi um sjónmissi vegna skotelda.
Mörg slys verða einfaldlega vegna dómgreindarskorts þar sem fólk hefur drukkið of mikið áður en það fer út að sprengja. Ef þú getur ekki beðið með að fá þér er best að fylgjast bara með.
Það er ástæða fyrir aldurstakmörkunum á skoteldum. Ábyrgur og allsgáður fullorðinn einstaklingur ætti alltaf að fylgjast með og leiðbeina börnum sem nota flugelda. Jafnvel stjörnuljós geta verið hættuleg þar sem þau brenna við mjög hátt hitastig.
HMS óskar sprengjuglöðum öruggra áramóta!