CE-merkingar

Kveðið er á um CE-merkingu ýmissa vöruflokka í svokölluðum nýaðferðartilskipunum Evrópusambandsins og er hún forsenda löglegrar markaðssetningar vöru sem fellur undir slíkar tilskipanir. CE-merkingin er fyrst og fremst ætluð markaðseftirlitsyfirvöldum.

CE-merkingin er yfirlýsing ábyrgðaraðila um að viðkomandi vara uppfylli grunnkröfur þeirra Evróputilskipana sem um hana gilda og að við mat á samræmi hafi verið beitt þeim aðferðum sem tilteknar eru í viðkomandi tilskipunum. CE-merkingin er ekki eingöngu yfirlýsing um að varan uppfylli kröfur tiltekinnar tilskipunar heldur allra Evróputilskipana sem um viðkomandi vöru kunna að gilda og kveða á um CE-merkingu. CE-merkingin er ekki gæðastimpill, hún segir t.d. ekkert til um endingu vörunnar.

Í mörgum tilvikum tengjast grunnkröfur tilskipana öryggi og heilsuvernd en einnig getur verið um að ræða kröfur sem tengjast umhverfi, virkni og fleiri þáttum.

CE-merkingin er skrásett merki og um hana gilda ákveðnar reglur varðandi stærð, lögun og þess háttar. Líklegt er að stafirnir CE standi fyrir frönsku orðin „Communauté Européenne“ eða Evrópubandalagið. Einnig er talið að þeir geti staðið fyrir frönsku orðin „Conformité Européenne“.

Frekari upplýsingar um CE-merkingu mismunandi vöruflokka má nálgast hér.

Sam­ræm­is­mat og að­ferð­ar­ein­ing­ar

Áður en vara er CE-merkt þarf hún að fara í gegnum samræmismat en slíkt mat þarf að fylgja tiltekinni aðferðareiningu. Þessar aðferðareiningar geta verið mismunandi eftir vöruflokkum. Hér fyrir neðan má sjá þær aðferðareiningar sem fylgja má við tiltekna vöruflokka.