Í jólamánuðinum, jafnt sem öðrum mánuðum ársins, er mikilvægt að hafa brunavarnir heimilisins í lagi. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun í samstarfi við slökkviliðin í landinu standa fyrir forvarnarátaki í brunavörnum sem hefst þann 1. desember ár hvert sem er dagur reykskynjarans.
Þrátt fyrir að átakið dragi nafn sitt af reykskynjurum á það einnig við um aðrar brunavarnir, svo sem slökkvitæki, eldvarnateppi og greiðar flóttaleiðir. Saman stuðla þessi fjögur atriði að bættu öryggi íbúa landsins. Ekki er þó einungis nægjanlegt að þessi öryggistæki séu til staðar heldur þurfa þau að vera rétt uppsett og aðgengileg, þeim sé viðhaldið og að notkun þeirra sé skýrð með leiðbeiningum frá framleiðanda.
Reykskynjara þarf að yfirfara árlega m.t.t. endingartíma rafhlöðu og virkni tækisins. Því er góð venja að prufa virkni þess reglulega, en á þeim er hnappur sem setur hljóðmerki tækisins í gang þegar ýtt er á hann. Gefi tækið ekki frá sér hljóð er um bilun að ræða sem krefst þess að tækið þurfi að yfirfara, skipta um rafhlöðu eða skipta tækinu út. Fjöldi og gerð reykskynjara fer eftir stærð húsnæðis og þess vöktunarhlutverks sem rýmið krefst af tækinu. Viðmið byggingarreglugerðar segja einn reykskynjara á hverja 80 m2, þó er almennt mælst til þess að reykskynjari sé í hverju herbergi sem sofið er í sem og herbergjum þar sem brunahætta er vegna stærri raftækja. Söluaðilar reykskynjara ættu að geta veitt haldbærar upplýsingar og þjónustu til að mæta þörfum neytenda. Sömuleiðis að veita leiðbeiningar og festingar við uppsetningu þannig að stuðlað sé að réttri uppsetningu og notkun festinga sem láta ekki undan við hita.
Eldvarnateppi skal festa upp á aðgengilegan og sýnilegan stað í eldhúsi þannig að hægt sé að grípa til þeirra á öruggan og einfaldan hátt eftir þörfum. Áður fyrr var algengara að eldvarnateppi voru keypt í umbúðum með íslenskum leiðbeiningum. Í dag er mikið um að eldvarnateppi séu seld í umbúðum sem taldar eru fyrirferðaminni eða smekklegri. Það gerir það að verkum að ekki eru sýnilegar leiðbeiningar og því mikilvægt fyrir neytendur að kynna sér hvernig nota eigi teppin og fara yfir slíka notkun með öðrum sambúendum. Engin ákvæði eru um eldvarnateppi í íslenskum lögum og því er ekki skylda að vera með sýnilegar leiðbeiningar á umbúðum eða geymsluhólfum eldvarnarteppa. Söluaðilar eiga að geta veitt upplýsingar um rétta notkun og ákjósanlega staðsetningu slíks búnaðar.
Slökkvitækjum er ætlað að slökkva eld á byrjunarstigi og til þess að þau gagnist þurfa tækin að vera af réttri gerð, stærð og notuð rétt. Slökkvitæki eru af ólíkum stærðum og gerðum, þ.e.a.s. að slökkvimiðillinn innan þeirra miðast að ólíkri gerð elda og hafa því ólíka slökkvigetu. Samnefnari slökkvitækja er að þau ber að yfirfara mánaðarlega af eiganda og árlega af viðurkenndum þjónustuaðila. Hafi tæki verið notað þarf það tafarlaust að fara í yfirferð hjá þjónustuaðila. Til að uppfylla ákvæði byggingareglugerðar þurfa slökkvitæki að vera rauð að lit og vera prófuð og merkt til samræmis við staðaðalinn ÍST EN 3. Algengast má finna annað hvort léttvatns- eða duft slökkvitæki á íslenskum heimilum en söluaðilar slökkvitækja eiga að geta ráðlagt um stærð og gerð tækja eftir þörfum neytenda. Undanfarið hefur borið töluvert á nýrri gerð tækja sem ætluð eru til brunavarna. Það eru tæki sem minna margt á dæmigerð slökkvitæki en eru af ýmsum litaafbrigðum og yfirleitt án leiðbeininga. Slík tæki uppfylla því ekki þær kröfur sem gerðar eru til slökkvitækja samkvæmt reglugerð og staðli. Þessi tækin flokkast því ekki sem slökkvitæki þar sem þau uppfylla ekki settar kröfur og eru því ekki tekin gild við eldvarnareftirlit og/eða öryggis- og lokaúttekt. Tækin henta því ekki þegar húsnæði er tekið í notkun eða í opinberum byggingum og öðrum stöðum á almennum vettvangi. Tækin geta hins vegar nýst sem viðbót við aðrar brunavarnir heimilisins og geta þannig stuðlað að auknu öryggi þar sem fólk þekkir til aðstæðna og veit hvar tækin eru staðsett. Þessi tæki þarf þó að yfirfara líkt og um viðurkennd slökkvitæki sé að ræða.
Engin ætti að leggja allt sitt traust á slökkvitækið því fyrstu viðbrögð við eldsvoða ættu alltaf að vera þau að forða fólki úr hættu og gera 1 1 2 viðvart um eldinn áður en farið er að reyna að slökkva.
Frekari upplýsingar um brunavarnir heimila má finna á forvarnasíðu HMS www.vertueldklar.is