Categories
Barnafatnaður Fræðsluefni

Bönd og reimar í barnafatnaði

Of löng bönd geta verið stórhættuleg.

HMS skoðaði bönd og reimar í barnafatnaði á 16 íslenskum sölusíðum í vetur.  Ástæðan fyrir reglulegum athugunum á barnafatnaði er að böndin geta verið stórhættuleg ef þau flækjast t.d. í reiðhjólum, bílhurðum, hurðum eða í leikvallartækjum. Á hverju ári verða börn fyrir slysum um allan heim vegna þess að bönd eða reimar hafa verið of löng í fatnaði. Atvik sem þessi geta leitt til alvarlegra áverka og jafnvel dauða. Þess vegna  kannar  HMS reglulega markaðinn til þess að athuga hvort að sá fatnaður sem boðinn er neytendum sé öruggur og uppfylli þau skilyrði sem gerð eru til hans.

Sjá fræðslumynd.

Á árinu hafa  um 400 peysur, skyrtur, buxur, kjólar og kápur verið skoðuðuð. Þar af voru 21 flík sem HMS óskaði eftir nánari upplýsingum. Af þeim voru fjórar flíkur í lagi. Söluaðilar þeirra 17 flíka sem reyndust ekki í lagi gripu strax til viðeigandi ráðstafana og stöðvuðu sölu og innkölluðu vöruna. Algengasti annmarkinn var sá að í fötum fyrir börn á aldrinum 0-7 ára (hæð 1,34 m) voru bönd í hettu eða hálsmáli en bannað er að hafa bönd í þeim flíkum.  Fyrir börn á aldrinum 7-14 ára mega böndin ekki vera lengri en 7,5 cm í hettu eða hálsmáli. Hættan felst í því að bönd í hettu eða í hálsmáli geta valdið hættu á kyrkingu.

Við viljum þakkar þeim verslununum sem tóku þátt í þessu átaki en óhætt er að segja að samvinna milli eftirlitsaðila og söluaðila sé lykilatriði. Þegar skoðaður er fatnaður á vefsíðum þá er það söluaðilinn sem mælir lengdina og upplýsir HMS.

HMS hvetur fólk til að athuga föt barna sinna og fjarlægja eða stytta bönd og reimar sem ekki uppfylla kröfur varðandi barnaföt og geta því verið hættuleg líkt og kemur fram í myndbandinu.

Að lokum vill HMS koma á framfæri að taki fólk eftir að verið er að selja barnaföt í verslunum sem virðast ekki uppfylla kröfur um barnaföt er það hvatt til að láta afgreiðslufólk verslunarinnar vita og senda ábendingu til HMS.