Eftirlit og dagleg stjórnsýsla er í höndum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. HMS tekur við tilkynningum um vörur sem eru ekki í samræmi við kröfur laga og reglugerða settra samkvæmt þeim og annast samskipti vegna þeirra við önnur eftirlitsstjórnvöld á Evrópska efnahagssvæðinu. Við framkvæmd eftirlits skal að öðru leyti farið eftir lögum um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu eftir því sem við á.
HMS tekur við ábendingum og skal fara með markaðseftirlit í samræmi við ákvæði laga nr. 42/2009 og nr. 72/1194 og reglna settra samkvæmt þeim.
HMS getur falið faggiltri skoðunarstofu að annast markaðseftirlit eða faggiltri prófunarstofu að prófa og meta hvort vara sem fellur undir lög þessi uppfylli kröfur laganna og reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim. Beiting úrræða skal vera í höndum HMS.
Innflytjandi, framleiðandi eða viðurkenndur fulltrúi hans hér á landi skal halda skrá með upplýsingum um birgja og þá sem bjóða fram vörur hans. Það sama á við um birgðasala eða viðurkennds fulltrúa hans hér á landi.
Ef ástæða er til að ætla að upplýsingar, sem veittar hafa verið séu rangar er HMS heimilt að krefja birgðasala eða söluaðila um gögn sem eru nauðsynleg eru við eftirlit. Jafnframt er stofnuninni heimilt að krefjast þess að eintök vöru og umbúða verði lagt fram til skoðunar.
HMS eða faggiltri skoðunarstofu er heimilt að skoða vörur hjá birgðasala eða viðurkenndum fulltrúa hans, framleiðanda eða viðurkenndum fulltrúa hans, innflytjanda eða söluaðila, taka sýnishorn af vöru til rannsókna og krefja þá um allar nauðsynlegar upplýsingar og gögn, svo sem aðgang að skrá yfir þá sem hafa vöruna á boðstólum, skýrslur um prófanir eða útreikninga og tæknileg gögn.
Framleiðandi eða viðurkenndur fulltrúi hans, birgðasali eða viðurkenndur fulltrúi hans bera kostnað vegna þeirra sýnishorna vöru sem tekin eru til rannsóknar. Að lokinni rannsókn skal sýnishornum skilað eða þau eyðilögð með öruggum hætti eftir atvikum. Sýnishorn vöru er að jafnaði eitt eintak vöru eða lágmarksfjöldi sem er nauðsynlegur er til að framkvæma rannsókn.
Birgðasali eða viðurkenndur fulltrúi hans, framleiðandi eða viðurkenndur fulltrúi hans bera allan kostnað af athugun á því hvort vara sé í samræmi við settar reglur, svo sem kostnað sem hlýst af skoðun, rannsókn og prófun, flutningskostnað, svo og annan kostnað sem er í beinum og efnislegum tengslum við eftirlitið. Birgðasali, framleiðandi eða viðurkenndur fulltrúi greiðir auk þess allan kostnað af tilkynningum sem beint er til almennings, svo sem kostnað við tilkynningar í fjölmiðlum.
HMS skal gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að upplýsingar sem beittar eru við málsmeðferðina teljist trúnaðargögn þegar slíkt telst réttmætt.
HMS skal tilkynna til Eftirlitsstofnunar EFTA ákvarðanir um bann og afturköllun á vörum.
HMS getur fyrirskipað innköllun, tekið af markaði eða bannað sölu eða afhendingu vöru sem tengist orkunotkun ef hún uppfyllir ekki skilyrði laga og reglugerða sem settra samkvæmt þeim, þ.m.t. um merkingar, leiðbeiningar og gögn sem ber að útbúa og hafa tiltæk.
HMS er heimilt að beita dagsektum allt að 200.000 kr. á dag til að knýja á um þær skyldur sem lögin kveða á um eða að látið sé af ólögmætu atferli. Dagsektir skulu renna í ríkissjóð. Ákvörðun um dagsektir skal tilkynnt skriflega á sannanlegan hátt þeim sem hún beinist að. Dagsektir má innheimta með fjárnámi.
Ákvörðun un dagsektir má skjóta til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála innan fjórtán daga frá því að hún er kynnt þeim er hún beinist að. Dagsektir reiknast ekki fyrr en frestur er liðinn.
Ef ákvörðun er skotið til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála falla dagsektir ekki fyrr en niðurstaða hennar liggur fyrir. Ákvörðun HMS verður ekki borin undir dómstóla fyrr en úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála liggur fyrir.
HMS getur lagt stjórnvaldssektir á fyrirtæki sem brjóta gegn ákvæðum laga og reglna settra samkvæmt þeim og ákvörðunum eftirlitsaðila. Slíkar sektir geta numið allt að 5 milljónum króna og skulu þær renna í ríkissjóð.
Ákvörðunum sem HMS tekur á grundvelli laga má skjóta til úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.
Ákvörðun HMS verður ekki borin undir dómstóla fyrr en úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála liggur fyrir.
Ef aðili unar ekki úrskurði úrskurðarnefndar getur hann þá höfðað mál til ógildingar fyrir dómstólum. Mál skal höfðað innan sex mánaða frá því að aðili fékk vitneskju um úrskurð úrskurðarnefndar.
Málshöfðun frestar ekki gildistöku úrskurðar nefndarinnar né heimild til aðfarar.
Borgartúni 21, 105 Reykjavík.
Ártorgi 1, 550 Sauðárkróki.
Hafnarstræti 107, 600 Akureyri.
kt: 581219-1480
Mán til fim frá kl. 9:00 – 16:00
Fös frá kl. 9:00 – 14:00