Almenn neytendavara

Almennar neytendavörur eru vörur sem falla ekki undir gildissvið sértækra laga eða reglugerða. Það þýðir þó ekki að það gildi engin lög um vörurnar því þær verða að uppfylla lög nr. 134/1995 um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu. Lögin ná til vöru sem boðin er hér á landi í atvinnuskyni eða er flutt út til annarra ríkja Evrópska efnahagssvæðisins. Tilgangur laganna er að tryggja að eingöngu séu markaðssettar öruggar vörur. Undir gildissvið laganna falla því neytendavörur sem engin sérstök lög eða reglur eiga við. Dæmi um slíkar vörur eru:

  • barnavörur,
  • barnafatnaður,
  • húsgögn,
  • stigar,
  • reiðhjól,
  • kerti,
  • húsgögn,
  • búsáhöld,
  • kveikjarar,
  • frísstundabúnaður o.m.fl.

Vörur sem falla undir almennar neytendavörur eiga ekki að vera CE-merktar og það þarf ekki leyfi yfirvalda til að selja vörurnar.

Vörurnar verða að uppfylla grundvallarkröfur vegna heilbrigðis, öryggis og umhverfis en um allar tæknilegar kröfur er vísað til staðla. Vörurnar teljast almennt öruggar ef þær uppfylla kröfur settar fram í gildandi stöðlum. Ef til eru staðlar um tiltekna vöru skulu þeir notaðir til að meta öryggi vara en annars út frá almennu áhættumati. Allar vörur eiga að vera öruggar og mega ekki fela í sér hættu fyrir líf og heilsu neytenda.

Mat á öryggi neytendavöru

Örugg vara merkir sérhverja vöru sem við eðlileg eða fyrirsjáanleg notkunarskilyrði, þ.m.t. endingartíma, svo og kröfur sem gerðar eru um uppsetningu, viðhald og hvernig hún skal tekin í notkun, telst vera hættulaus fyrir einstaklinga, heilsu þeirra og eignir. Enda fullnægi hún almennum kröfum sem gerðar eru vegna almannahagsmuna um öryggi og vernd heilsu, svo og umhverfis.

Öryggi vörunnar er meðal annars metið með hliðsjón af eftirfarandi:

  • Eðli vörunnar þar með talið samsetning hennar, umbúðir og leiðbeiningar og þar sem við á uppsetningar- og viðhaldsleiðbeiningar.
  • Almennum leiðbeiningum sem henni fylgja, svo sem merkingum á henni og ef við á varnarorð, leiðbeiningum um notkun og förgun og öðrum upplýsingum sem framleiðandi lætur í té.
  • Áhrifum hennar á aðrar vörur ef fyrirsjáanlegt er að hún verði notuð með öðrum vörum.
  • Vara telst örugg ef hún uppfyllir skilyrði sem fram koma í íslenskum stöðlum sem innleiða samhæfða Evrópska staðla (ÍST EN), sem tilvísun hefur verið birt í hér á landi og í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins í samræmi við ákvæði tilskipunar um öryggi vöru.
  • Séríslenskum stöðlum og evrópustöðlum, öðrum en þeim sem getið er um ofar.
  • Öryggi hennar gagnvart viðkvæmum notendum, svo sem börnum og eldra fólki.
  • Tilmælum Evrópusambandsins þar sem fram koma viðmiðunarreglur um öryggi vöru.
  • Gildandi lögum og reglum um góðar starfsvenjur varðandi öryggi og vöru innan atvinnugreinar.
  • Öðrum viðeigandi atriðum, þar á meðal eðli vöru, öðrum vörum sem hún er notuð með, tæknistigi og tækni og því öryggi sem neytendur geta vænst með réttu.
Athuga:

Lögin gilda ekki um fornmuni eða notaða lausafjármuni. Þau taka til vöru sem boðin er neytendum en ná ekki til vöru eða þjónustu sem nær eingöngu er framleidd eða unnin til frekari framleiðslu eða notkunar í atvinnurekstri.