Markaðssetning borðspila

Markaðssetning borðspila

Ef spil er ætlað börnum yngri en 14 ára þá flokkast það sem leikfang og þarf að fylgja skilyrðum reglugerðar nr. 944/2014 um öryggi leikfanga og markaðssetningu þeirra á Evrópska efnahagssvæðinu. 

Ef spil er ætlað eldri notendum en 14 ára, þá er spilið ekki talið leikfang og þarf því ekki fylgja kröfum reglugerðarinnar.

Ef spilið er ætlað fyrir stóran hóp af börnum og unglingum til dæmis á aldrinum 12 til 16 ára þarf að uppfylla kröfur reglugerðar um öryggi leikfanga, jafnvel þótt spilið sé ekki eingöngu hannað fyrir börn yngri en 14 ára.

Til einföldunar, að ef markhópur spilsins er fyrir notendur yngri en 14 ára, þá verður varan að uppfylla kröfur reglugerðar um öryggi leikfanga.

Kostir og mikilvægi þess að fylgja leikfangareglugerðinni

Það er mjög mikilvægt að fara eftir leikfangareglugerðinni ef það á að markaðssetja spil með góðum árangri á Evrópska efnahagssvæðinu.

  • Það dregur úr að varan skaði ekki börn fyrir slysni,
  • Það dregur úr líkum á sektum og innköllunum,
  • Það getur leitt í ljós vandamál tengd vörunni áður en hún fer á markað sem getur sparað tíma og fjármuni,
  • Það eykur traust viðskiptavina á vörumerkinu og á vörunni.

Með þessi atriði í huga ætti að líta á leikfangareglugerðina sem tæki til að sanna að spilið sé í samræmi við staðla og að það skaði ekki öryggi barna.

Merkingar

Hér eru merkingar sem þurfa að koma fram á umbúðum spilsins:

Aldurstakmarkanir: Lágmarks- eða hámarksaldur notandans.

Einnig ef við á: Spil sem ekki eru ætluð til notkunar af börnum yngri en 36 mánaða.

Á leikföngum sem gætu verið hættuleg börnum yngri en 36 mánaða skulu vera varnarorð, t.d. „Hæfir ekki börnum yngri en 36 mánaða“ eða „Hæfir ekki börnum yngri en þriggja ára“ eða eftirfarandi viðvörunarmerki:

Með þessum viðvörunum skal fylgja stutt lýsing, sem gæti verið í notkunarleiðbeiningum, um þá sérstöku hættu sem er ástæða varúðarráðstöfunarinnar.

Viðvaranir: Viðeigandi viðvaranir verða einnig að fylgja vörunni. Á undan viðvörunni verða orðin „Viðvörun“ eða „Viðvaranir“ að koma á undan.

Auðkennisnúmer: Leikföng sem eru fáanleg á Evrópska efnahagssvæðinu verða að hafa tegundar-, lotu-, rað-, eða gerðarnúmer sem aðgreinir vöruna frá öðrum vörum. 

Samskiptaupplýsingar: Á umbúðum vörunnar skal koma fram nafn, skráð vöruheiti eða vörumerki framleiðanda og heimilisfang þar sem hægt er að hafa samband við hann. Ef spilið er markaðssett undir nafni eða vörumerki einhvers annars telst sá aðili framleiðandi. 

CE-merking

Það er skylda að festa CE-merki á leikföng á Evrópska efnahagssvæðinu. Ef spilið er ætlað fyrir eldri en 14 ára og er merkt +14 þá þarf það ekki CE-merkingu.

CE-merkingin þarf að vera sýnileg og læsileg á umbúðunum og skal setja við hlið annarra viðvarana eða notkunarleiðbeininga.

Til að hægt sé að CE merkja vöruna þarf hún að fara í gegnum prófanir samkvæmt ÍST EN 71 staðlinum.

MIKILVÆGT: Bak við CE-merkingu þarf að fylgja samræmisyfirlýsing og prófunarskýrslur samkvæmt ÍST EN 71 staðlinum.

Staðall ÍST EN 71

ÍST EN 71 er safn af samhæfðum stöðlum sem gilda um öll leikföng sem seld eru á Evrópska efnahagssvæðinu. Þeir eiga að tryggja að öll leikföng sem seld eru á Evrópska efnahagssvæðinu uppfylli lágmarksöryggi. ÍST EN 71 er samansettur úr 13 hlutum en fyrstu 3 hlutarnir eru aðallega notaðir.

  • ÍST EN 71-1: Kraftrænir og efnislegir eiginleikar

Þessi hluti snýst um hvort einhverjir kraftrænir eða efnislegir eiginleikar leikfangs geti skaðað barn. Eins og til dæmis hvassar brúnir eða hvort það séu hlutir sem auðvelt sé að gleypa.

  • ÍST EN 71-2: Eldfimi

Þessi hluti prófar mismunandi hluti sem gætu leitt til meiðsla vegna bruna. Hann hjálpar til við að ákvarða tilvist eldfimra efna í leikfanginu, hversu lengi hluturinn brennur og hversu hratt eldurinn dreifist yfir hann.

  • ÍST EN 71-3: Far tiltekinna frumefna

Þessi hluti takmarkar magn blýs og greinir átján önnur eitruð efni til viðbótar sem geta verið jafnvel skaðlegri en blý.

Hægt er að fara tvær leiðir til að prófa vöru, annað hvort með því að senda vöruna á prófunarstofu eða að framleiðandi gerir prófanir sjálfur samkvæmt viðeigandi stöðlum.

EB-samræmisyfirlýsing

EB-samræmisyfirlýsing er skrifleg yfirlýsing sem framleiðandinn semur til að sýna fram á að varan uppfylli viðeigandi kröfur.

EB-samræmisyfirlýsing skal innihalda eftirfarandi:

  1. Nr. …(einkvæmt auðkenni leikfangsins).
  2. Nafn og heimilisfang framleiðanda eða viðurkennds fulltrúa hans:
  3. Útgáfa þessarar samræmisyfirlýsingar er einungis á ábyrgð framleiðandans:
  4. Hluturinn sem yfirlýsinginn á við um (auðkenning leikfangsins með tilliti til rekjanleika). Hún skal innihalda litmynd sem er nægilega skýr til að hægt sé að auðkenna leikfangið.
  5. Hluturinn sem yfirlýsingin á við um og er lýst er í 4. lið er í samræmi við viðkomandi samhæfingarlöggjöf Bandalagsins:
  6. Tilvísanir í viðkomandi samhæfða staðla sem eru notaðir eða tilvísanir í forskriftir sem samræmisyfirlýsing miðast við.
  7. Þar sem við á:
    Tilkynntur aðili ….
    (nafn, númer) ….
    Framkvæmdi …
    (lýsing á afskiptum) …
    Og gaf út vottorðið:
  8. Viðbótarupplýsingar
    Undirritað fyrir hönd:
    (útgáfustaður og dagsetning)
    (nafn, stöðuheiti) (undirritun)

 

 

Þessar leiðbeiningar eru hvorki tæmandi né lagalega bindandi. Ef upplýsingar sem hér birtast eru ekki í samræmi við útgefna löggjöf á þessu sviði gildir löggjöfin.