Réttindi vigtarmanna
Í 27. grein laga nr. 91/2006 um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn segir orðrétt:
„Fullgilt vottorð löggilts vigtarmanns er sönnun um þyngd þess sem vegið var og hvað var vegið. Í stjórnvaldsfyrirmælum er unnt að tilgreina að ákveðin störf skuli unnin af löggiltum vigtarmönnum“.
Ennfremur stendur í 26. grein: „Löggiltur vigtarmaður ber ábyrgð á vigtun sem hann vottar í samræmi við viðurkennda starfshætti þeirrar vigtunaraðferðar sem notuð er hverju sinni. Í því felst að löggiltur vigtarmaður skal sjálfur vera viðstaddur vigtun, hann tryggir alla framkvæmd hennar og staðfestir hana með undirritun sinni á vigtarvottorð sem hann ber ábyrgð á í samræmi við lög og reglur settar samkvæmt þeim“.
Sem dæmi er kveðið á um það í reglugerðum að þeir sem sjá um vigtun sjávarafla skuli vera löggiltir vigtarmenn og því mega ekki aðrir vinna þá vinnu. Löggilding sem vigtarmaður veitir því réttindi til ákveðinna starfa og gerir viðkomandi kleift að gefa út vottorð sem standast fyrir dómi.
Löggildingar vigtarmanna
HMS löggildir vigtarmenn í samræmi við e-lið 4. gr. laga nr. 91/2006. Löggiltir vigtarmenn geta þeir orðið sem uppfylla eftirtalin skilyrði:
a. eru búsettir hér á landi,
b. eru fullra tuttugu ára,
c. eru sjálfráða og fjárráða,
d. hafa sótt námskeið til löggildingar vigtarmanna og staðist próf.
Löggildingar vigtarmanna gefnar út eftir 29. júní 2006 gilda í 10 ár. Þær löggildingar sem gefnar voru út fyrir þann tíma halda þeim gildistíma sem þá var í gildi, þ.e. fimm ár, eins og fram kemur á löggildingarskjali.
Brot á reglum um starfsskyldur vigtarmanns eru grundvöllur tafarlausrar sviptingar réttinda. HMS er heimilt að veita bráðabirgðalöggildingu vigtarmanns. Skilyrði fyrir undanþágu og bráðabirgðalöggildingu er að óframkvæmanlegt sé að fá löggiltan vigtarmann til starfans og brýna nauðsyn beri til að vigtun fari fram lögum samkvæmt. (23. gr.)
Sérreglur um íslenskukunnáttu
Athygli er vakin á því að gerðar eru kröfur um íslenskukunnáttu bæði varðandi skilning og skrift þar sem öll kennsla fer fram á íslensku og einnig eru spurningar í prófi á íslensku og sem svara þarf á íslensku.
Borgartúni 21, 105 Reykjavík.
Ártorgi 1, 550 Sauðárkróki.
Hafnarstræti 107, 600 Akureyri.
kt: 581219-1480
Mán til fim frá kl. 9:00 – 16:00
Fös frá kl. 9:00 – 14:00